Það er búið að vera mikið um að vera hjá Facebook síðustu vikurnar og höfum við varla haft undan við að lesa um allar nýjungarnar sem eru að koma frá þeim. Það nýjasta sem Facebook var að senda frá sér er að þeir eru tilbúnir að fara í samkeppni við LinkedIn með því að bæta við þeim eiginleika að fyrirtæki geti auglýst laus störf í gegnum Facebook síðu fyrirtækisins. Þetta mun því gera stjórnendum kleift að birta laus störf og taka við umsóknum beint í gegnum Facebook. 

Þó er ekki alveg ljóst hvort eða hvernig Facebook ætlar að rukka fyrir þessa þjónustu. LinkedIn þénar stóran hluta af sínum tekjum í gegnum áskriftir sem ráðningastofur (e.reqruiters)  greiða fyrir svo þeir geti nálgast betur einstaklinga sem eru að leita sér að vinnu eða passa við prófílinn sem fyrirtæki eru að leitast eftir.

Samkvæmt skoðunarkönnun Gallup sem var gerð um daginn kom í ljós að 91% einstaklinga 18 ára og eldri eru á Facebook, en aðeins 17% á LinkedIn. Íslensk fyrirtæki hafa ekki verið að nýta sér í stórum mæli að auglýsa laus störf í gegnum LinkedIn eins og þekkist erlendis og má því ímynda sér að fyrirtæki muni færa starfsauglýsingar sínar í auknum mæli yfir á Facebook ef áform samfélagsmiðlarisans ganga eftir.

Við veltum því einnig fyrir okkur hvort að þetta muni ekki einnig hafa áhrif á birtingar á starfsmannaauglýsingum i gegnum prentmiðla þar sem möguleikarnir á því að miða auglýsingunum beint að ákveðnum markhóp í gegnum Facebook munu eflaust lækka auglýsingakostnað. 

Við hjá SAHARA munum allavega bíða spenntir eftir frekari fréttum af þessari viðbót.