Samfélagsmiðlarnir eru í hraðri þróun og eru ávallt að verða sterkari áhrifavaldar í viðskiptalífinu. Árið 2016 var sérstaklega viðburðarríkt ár í þessum efnum og margar nýjungar litu dagsins ljós. Markaðsfólk notar í auknum mæli samfélagsmiðla til að ná til markhópa og nú þegar 2017 er runnið upp er mikilvægt að vera meðvitaður um stefnur og strauma í þessu spennandi markaðstóli.

En hvaða straumar og stefnur munu standa uppúr árið 2017 í markaðssetningu á samfélagsmiðlum. Við hjá SAHARA höfum tekið saman 5 strauma og stefnur sem hafa verið mikið ræddar á síðustu vikum sem verður áhugavert að fylgjast með á nýju ári. 

1.VÖRUMERKI NÝTA STARFSMENN SEM TALSMENN

Fyrirtæki eru í auknum mæli að átta sig á mikilvægi talsmanna á samfélagsmiðlum. Síðastliðin þrjú ár hefur verið gífurleg aukning í nýtingu eigin mannauðs sem talsmanna fyrirtækja. Það hefur sýnt sig að notendur samfélagsmiðla treysta upplýsingum sem vinir og fjölskylda deilir og það umfram aðrar upplýsingaveitur. Með því að nýta starfsfólk sem talsmenn nær fyrirtækið til almennings í gegnum persónulegar deilileiðir og getur þannig náð auknum áhrifum og trausti. 

Þessi þróun tónar einnig vel við umræður sem hafa verið að eiga sér stað hvað varðar náttúrulega dreifingu efnis (organic reach) í stað kostaðra færslna. En með því að virkja starfsfólkið þá nærðu ekki eingöngu sterkari tengslum við viðskiptavini, heldur einnig getur sparast markaðsfé þar sem ekki er endilega þörf á að kosta færslurnar. 

2.LIVE ÚTSENDINGAR

Samfélagsmiðlar sem bjóða upp á „Live“ útsendingar er nú sífellt að fjölga. Nýlega tilkynntu bæði Instagram og Twitter þessa nýjung hjá sér. Með auknu “on demand” efni hefur áskrift sjónvarpsstöðva farið minnkandi en á sama tíma hafa beinar útsendingar og auglýsingar verið að færast yfir í snjallsíma og tölvur með aukinni notkun samfélagsmiðla.

Facebook hefur lagt mikið í kynningar á Facebook Live og eru sífellt fleiri fyrirtæki og áhrifavaldar farnir að nýta sér þessa þjónustu. SAHARA hefur komið að fjölda verkefna á þessu ári sem tengjast beinum útsendingum og hefur verið mjög áhugavert að sjá hversu hratt útsendingarnar hafa þróast. Nýlega kynnti Facebook til að mynda Live Audio og Live 360, þannig þá má áætla að samfélagsmiðlarisinn sé bara rétt að hefja vegferð sína á þessum vettvangi. 

3.ÁHRIFAVALDAR

Það hefur sýnt sig að áhrifavaldar geta haft gífurlega jákvæð áhrif á markaðssetningu á tilteknum vörum. Áhrifavaldar hafa marga virka fylgjendur á sínum afmörkuðu sviðum og hægt er að nýta sér það til að ná til ákveðinna markhópa. Fylgjendur þeirra treysta yfirleitt þeirra frásögnum, ekki ólíkt þeim áhrifum þegar vinur mælir með góðri vöru eða þjónustu.

Í gegnum áhrifavalda getur fólk séð sig í sömu sporum sem virkar vel. Stór hluti markaðsfólks notar áhrifavalda í markaðsstarfi sínu og er því líklegt að við munum sjá það aukast árið 2017, en á sama tíma munu kröfur um að draga inn rétta áhrifavalda sem hafa trúverðuglega tengingu við herferðina aukast enn frekar. Mælanleiki á árangur mun einnig skipta miklu máli, en fyrirtæki eins og Takumi og Ghostlamp hafa einmitt lagt áherslu á að upplýsa fyrirtæki um árangur herferða sem tengjast áhrifavöldum. 

4.TÍMABUNDIÐ EFNI MUN AUKAST

Það var Snapchat sem var brautryðjandi í að kynna myndbönd sem lifðu aðeins í styttri tíma. Það byrjaði með 10 sekúndna myndböndum sem síðar þróuðust í 24 klst sögur eða "stories" á sama miðli. Instagram fylgdi í kjölfarið með Instagram Stories og að lokum Messenger. Efni sem lifir tímabundið er að koma sterkt inn á samfélagsmiðlana í ár sem eykur á persónulegri markaðssetningu. 

Á Facebook eru birtar um 1 milljarður færslna á dag og samkeppnin er því hörð. Efni sem lifir tímabundið eykur á hraðann og vörumerki þurfa að finna efni sem hentar þessari nýjung. Margar athyglisverðar markaðsherferðir hafa litið dagsins ljós á þessum vettvangi eins og herferðin Höldum Fókus og hina umdeildu herferð í kringum Eiðinn, en báðar þessar herferðir fengu mjög sterk viðbrögð. 

5.MYNDBÖND FÁ MEIRA VÆGI

Það er klárt mál að notkun myndbanda í markaðsstarfi á samfélagsmiðlum mun aukast enn frekar á komandi ári. Notkunarmynstur hefur breyst hratt undanfarna mánuði og dugar ekki lengur að senda frá sér einfaldar stöðuuppfærslur án myndbands og/eða myndar til að ná til einstaklinga. Fyrirtæki þurfa því nú að leggja aukna áherslu að skapa efni sem fangar athygli neytandans og koma þar myndbönd sterk inn. 

Til dæmis hefur verið talað um að Facebook verði eingöngu byggt upp á myndböndum eftir 5 ár og miðað við hraða þróun þá er það alls ekki ólíklegt. 360 myndbönd, Live útsendingar og opnun á einfaldri upptöku í skilaboða hluta Facebook ýtir undir þessar spár sérfræðinga. 

Sama hvernig þróun mun svo í raun og veru verða, þá er ljóst að það eru spennandi tímar framundan og verður gaman að fylgjast með hvernig fyrirtæki á Íslandi munu aðlaga sig að örum breytingum í heimi samfélagsmiðla.