Instagram-novo-logo.jpg

Það hafa eflaust margir tekið eftir því að 2016 var stórt ár hjá Instagram og ýmsar betrumbætur og breytingar gerðar. Ein stærsta nýjungin var Instagram Stories sem hefur heppnast afar vel. Sömuleiðis hafa bæst við aðrir minniháttar en mikilvægir eiginleikar t.d. gagnvirkar auglýsingar og live útsendingar en einnig er gefinn kostur á að reka fleiri en einn aðgang í einu. 

Árið 2016 breytti Instagram um útlit, bætti við sig milljónum notenda og sjálfur páfinn stofnaði sinn eigin aðgang (@franciscus). 

Núna í lok árs eru fleiri en 600 milljón virkir notendur mánaðarlega og 300 milljónir daglega. Auk þess er um helmingur notenda sem fylgja fyrirtækjum eða vörumerkjum á miðlinum. Hér að neðan kemur smá útdráttur úr því helsta sem var bætt við á árinu sem er að líða:
 
1. Möguleiki á að vera með marga aðganga (febrúar) 
Nú geta notendur loksins verið með aðgang að fleiri en einum reikning á sama tækinu. Það á sérstaklega eftir að einfalda fyrirtækjum við notkun miðilsins þar sem auðveldlega er hægt að flakka á milli persónulegra aðganga yfir í fyrirtækja aðganga. Við hjá SAHARA erum allavegana mjög sátt með þessa breytingu og vonumst svo til að Instagram bjóði fljótlega uppá að vera tengur enn fleiri aðgöngum í einu. 
  
2. Lengri myndbönd (mars) 
Instagram lengdi tímann á myndböndum upp í 60 sekúndur sem gefur notendum meiri möguleika á að skapa áhugavert og skemmtilegt efni. Það hefur einnig sannast að myndbönd fá yfirleitt meiri dreifingu og áhorf heldur en myndir, líkt og á Facebook. 
 
3. Breyttur algóritmi við röðun (júní) 
Instagram tók ansi stórt skref í sumar þegar ákveðið var að breyta þeim algóritma sem stjórnar myndaröðun. Í stað þess að birta myndir í tímaröð birtast þær nú eftir áhugasviði notandans. Þetta hefur því leitt til minni sýnileika meðal margra og því er nú enn mikilvægara að vanda myndavalið. 

Ef myndir fá lítil viðbrögð frá ákveðnum fylgjendum munu þær smátt og smátt hætta að birtast hjá þeim hópi. Því er betra að birta sjaldnar með aukna áherslu á gæði efnisins, bæði myndefni og texta. 
 
4. Instagram Story (ágúst) 
Instagram Story minnir mikið á virkni Snapchats. Þar sem notendur geta deilt augnablikum með 20 sek innslögum sem endist einungis í 24 tíma. Auk þess er hægt að hlaða inn ljósmyndum sem hafa verið teknar á síma síðastliðinn sólarhring. Þannig er hægt að deila meira efni á miðlinum án þess að draga áhersluna af myndfærslunum sem Instagram byggir á.
 
5. “Zoom in” á myndir (ágúst) 
Það hefur verið í boði að zooma inn á myndir í smáforritum hjá bæði facebook og twitter í langan tíma. Það var því kominn tími til að Instagram aðlagaðist og bætti þessum eiginleika við. Sum fyrirtæki hafa nýtt sér þetta í gjafaleikjum þar sem notendur þurfa að finna einhvern falinn hlut á myndinni til þess að komast í pottinn. 
 
6. Síun og lokun á athugasemdir (september) 
Instagram býður notendum nú upp á að geta lokað fyrir athugasemdir sem innihalda ákveðin lykilorð á borð við blótsyrði eða ærumeiðingar. Instagram leyfir þér að setja inn lista af bannorðum og þá munu athugasemdir með þessum orðum ekki birtast á síðunni. Hinn möguleikinn er að slökkva alveg á athugasemdakerfinu. Þessi eiginleiki getur nýst vel hjá stórum fyrirtækjum sem hafa litla yfirsýn yfir hvað fer í gegnum athugasemdakerfið hjá þeim. 
 
7. Vista drög (september) 
Áður fyrr var það þannig að ef þú settir inn mynd og skelltir á hana filter og ýttir á “til baka” takkann þá hurfu allar breytingar á myndinni. Nú hefur Instagram lagað þetta og gert notendum kleift að vista drög. Þá er hægt að vinna mynd, skrifa um hana texta og merkja staðsetningu en að lokum er hægt að vista hana undir drög. Þetta er mjög góður eiginleiki sem hægt er að nýta til undirbúnings á nokkrum færslum í einu. Síðan er hægt að birta þær með reglulegu millibili án þess að þurfa að byrja frá grunni. Þetta getur hjálpað fyrirtækjum að samræma myndbirtingar og skipuleggja sig fram í tímann. 
 
8. Live útsendingar (nóvember) 
Ein síðasta uppfærslan sem Instagram kynnti á árinu var möguleikinn á að fara “live” eða vera með beina útsendingu. Það getur komið sér vel til þess að ná til fylgjenda á stað og stund. Eftir að hafa verið í beinni þá hverfur allt myndbandið af síðunni, sem gefur fólki aukið traust á að deila efni hvenær sem er.

Þetta hefur verið ansi viðburðarríkt ár hjá miðlinum og við hjá SAHARA bíðum spennt eftir nýjungum á árinu 2017! 😄