23435009_383462245424256_8985450181874784099_n.jpg

Á World Travel Market í London í síðustu viku voru saman komnir yfir 50 þúsund ferðaþjónustuaðilar, opinberir aðilar, fræðimenn og áhrifavaldar alls staðar að úr heiminum til þess að kynna vörur sínar og þjónustu og ræða strauma og stefnur í öllu sem viðkemur ferðaiðnaði. 

Við hjá SAHARA höfum unnið nokkuð að efnissköpun og markaðssetningu á samfélagsmiðlum með  fyrirtækjum og einstaklingum í ferðaþjónustu og mættum því að sjálfsögðu til London. Þar kynntum við þjónustu okkar nánar fyrir áhugasömum samstarfsaðilum og fræddumst um það nýjasta í bransanum. 

Eins og sjá má á myndunum var mikið um að vera og margt að sjá og heyra en þessi atriði stóðu upp úr:

1. Efnissköpun

"Content is king" er orðið gamalt slagorð en er engu að síður alveg jafn gjaldgengt og þegar það kom fyrst fram. Flestallir ferðaþjónustuaðilar eru að leita leiða til þess að ná betur beint til ferðamannsins án þess að þurfa að greiða mörgum millimönnum og vilja auka beina sölu í gegnum eigin söluleiðir. Til þess þarfnast þeir markaðsefnis sem höfðar til ferðamannsins, sem í dag sækir langmestan innblástur sinn á samfélagsmiðlana. Efnið þarf því að vera sérsniðið að þeim miðlum. Það sem hvetur ferðamanninn til að kaupa ferð er tilfinningin sem vaknar þegar hann sér markaðsefnið en ekki magnið af upplýsingum sem kemst fyrir í bæklingi eða á heimasíðu. 

2. Myndbönd

Myndbönd skila mestu áhorfi og dreifingu á samfélagmiðlum og henta einstaklega vel til að miðla upplifunum og þeim tilfinningum sem þeim fylgja. Flestir eru að framleiða efni sem er 1-4 mínútur á lengd en á sama tíma þurfum við að hafa í huga að meðaláhorfslengd er 10 sekúndur á Facebook! Fyrirtæki eru því í auknum mæli að framleiða löng myndbönd 10-20 mínútur, fyrir þá sem hafa mikinn áhuga og vilja sem mestan innblástur, og vinna svo úr þeim 10-40 sekúndna myndbrot til að nota á mismunandi samfélagsmiðlum. 

3. Sýndarveruleiki (Virtual Reality)

Sýndarveruleiki er nú ekki lengur framúrstefnuleg tækninýjung heldur vel nýtt markaðstól fyrir marga ferðaþjónustuaðila. Með því að gera fólki kleift að ferðast um fjarlægjar slóðir með hjálp VR gleraugna er ekki bara hægt að auðvelda öldruðum og hreyfihömluðum að ferðast í huganum um svæði sem þau kæmust annars aldrei á heldur er einnig hægt að leyfa söluaðilum og öðrum samstarfsaðilum að upplifa ferðir og þjónustu án þess að bjóða hverjum og einum þeirra á staðinn. 

4. "Slow travel" og sjálfbærni í ferðaþjónustu

Hegðun ferðamannsins er að breytast og samhliða því þarf markaðssetning í ferðaþjónustu að breytast. Ferðamaðurinn leggur meira á sig við að kynnast áfangastað fyrirfram, menningu og jafnvel tungumáli og hér er kjörið tækifæri fyrir fyrirtækin til að miðla sögum og upplýsingum (storytelling). Samtímis eru auknar kröfur um sjálfbærni í ferðaþjónustu og ferðamenn orðnir mjög meðvitaðir neytendur sem gera miklar kröfur. Fyrirtæki sem eru meðvituð um þessar stefnur og taka mið af þeim í þjónustu sinni hafa nú meiri möguleika en nokkru sinni fyrr að mæta þörfum þessara ferðamanna um leið og þörfin er meiri en nokkru sinni fyrr að sjá til þess að markaðssetningin endurspegli þessar stefnur. 

Höfundur // Inga Rós AntoníusdóttirFramkvæmdastjóri SAHARA DK