chat1.jpg

Chatbot eða spjallmenni hefur á undanförum árum rutt sér til rúms á samfélagsmiðlum. Spjallmenni er hugbúnaður sem tengdur er við spjallforrit samfélagsmiðla s.s. Facebook messenger, sem hannaður er til að hafa sjálfvirk samskipti við fólk. Í fyrsta sinn hafa spjallforrit tekið yfir samfélagsmiðla, en sem dæmi má nefna hafa vinsældir Facebook Messenger vaxið mun hraðar en Facebook. Það er því ekki að undra að markaðssérfræðingar sem sérhæfa sig í markaðssetningu á samfélagsmiðlum horfi til þessa vettvangs.

Á dögunum héldu Davíð Lúther og Sigurður Svansson til San Diego til fundar við fremstu sérfræðinga á Social Media Marketing World þar sem þeir fræddust um það nýjasta í heimi spjallmenna. Samkvæmt Davíð er þetta afar hentug leið fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, en með tilkomu spjallmenna geta fyrirtæki aukið samskipti sín við viðskiptavini um allt að 60%. Nú þegar eru nokkur verkefni í farvatninu og augljóst að mjög spennandi tímar eru framundan fyrir viðskiptavini Sahara.

Hvernig virkar spjallmenni?

Ímyndaðu þér að þú standir inni í risastórri verslun sem selur allt milli himins og jarðar. Í stað þess að eigra sjálfur um gangana í leit að því sem þig vantar, þá kemur undir eins til þín aðstoðarmaður sem sýnir þér nákvæmlega hvar varan sem þú leitar að, er að finna. Þannig virkar spjallmenni.

Hvaða fyrirtæki ættu að nýta sér spjallmenni?

Spjallmenni er tilvalið fyrir öll fyrirtæki sem sjá hag sinn í því að auka samskipti við viðskiptavini, koma vörum sínum á framfæri og gefa viðskiptavinum sínum hentugri og þægilegri leið til að panta þjónustu. Hvort sem fyrirtækið þitt er t.d. banki, tryggingafélag, flugfélag, veitingastaður, smásöluaðili, vefverslun eða í ferðaþjónustu getur spjallmenni hjálpað þér að svara fyrirspurnum um leið og þær berast og mynda þannig samband við væntanlega viðskiptavini.

Neytendur standa oftar en ekki frammi fyrir því að erfitt getur reynst að ná sambandi við fyrirtæki, sérstaklega utan opunartíma. Með tilkomu spjallmenna getur viðskiptavinur óskað eftir ákveðnum upplýsingum hvenær sem er sólarhringsins með því að senda skilaboð til fyrirtækisins og spjallmennið sér um að veita upplýsingarnar.

Segjum sem svo að þú sért að skipuleggja ferðalag. Þú myndir leita að hótelum á svæðinu, skoða kort, finna út bestu staðsetninguna, hvar áhugaverðir staðir eru, góðir veitingastaðir o.s.frv. Í stað þess að þú þurfir sjálf/ur að finna út besta mögulega kostinn fyrir þig í gegnum ótal leitir á fjölda heimasíðna, gætir þú í einu samtali við spjallmenni fengið að vita allt sem þú vilt vita. Möguleikarnir með spjallmennum eru endalausir, einstaklingar geta fengið upplýsingar um veðurfar á ákveðnum stað, aðstoð við að panta matvörur eða borð á veitingastað, upplýsingar um afþreyingu, tilkynningar um fréttir og áfram mætti lengi telja.

Frábært, ekki satt!