f1.jpg

Í dag, 1. maí hófst F8, hin árlega ráðstefna þróunarteymis Facebook. F8 hefur farið stækkandi með hverju árinu og margir fylgjast spenntir með hvaða nýjungar og breytingar verða kynntar til sögunnar. Á síðastliðnum árum hefur Facebook keypt fjölmörg fyrirtæki til að þróast sem hraðast (getið séð lista yfir öll fyrirtækin hér). Einna þekktust eru Instagram (keypt árið 2012), Whatsapp og Oculus VR (keypt 2014). Ráðstefnan í ár snerist einna helst um þessi fjögur fyrirtæki og áherslan var á öryggi, uppbyggingu samfélaga og tækniþróun.

FACEBOOK

Stefnumótaviðbót

Vissir þú að 1 af hverjum 3 hjónum í Bandaríkjunum kynntust á netinu? Helsta tilkynningin hjá Facebook í dag var án efa stefnumótaviðbótin sem á að koma á næstunni. Yfir 200 milljón einstaklingar eru skráðir einhleypir á Facebook og einna mest umbeðna viðbótin hefur verið að auðvelda fólki að kynnast og stofna til sambanda.

Viðbótin verður valkvæð og aðeins þeir sem eru skráðir í viðbótina fá að sjá aðra sem eru skráðir. Efst í hægra horni prófíls mun sjást hjarta sem hægt er að smella á til að fara á stefnumótasíðuna. Þar er annar prófíll sem við komandi hefur sett upp, sem er ekki svo ósvipaður Tinder-prófíl. Helstu upplýsingar birtast en þó aðeins eiginnafn og það sem fólk vill að sjáist um sig. Vinir munu ekki koma upp í stefnumótaviðbótinni og upplýsingar frá viðbótinni munu hvergi koma upp í fréttaveitunni.

Í viðbótinni er hægt að skoða nálæga viðburði og hópa tengdum áhugamálum. Ef maður hefur áhuga á viðburði eða hóp getur maður opnað hann og séð þá aðila sem eru skráðir í stefnumótaappið og hafa einnig áhuga á þeim viðburðum eða hópum. Hægt er að stofna til samtals við aðila sem manni líst vel á en samskiptin eru þá í nýjum „Messenger“ tengdum stefnumótaviðbótinni og er ótengdur Facebook Messenger.

hjarta-dating.png

Hægt að kjósa athugasemdir upp og niður

Facebook ætlar að bregðast við fúleggjunum í athugasemdakerfinu með upp-og-niður kosningakerfi. Nú verður hægt að gefa athugasemd stig upp ef fólki finnst það málefnalegt og niður ef það er óáhugavert eða leiðinlegt. Þannig munu athugasemdirnar raðast upp eftir atkvæðum, svipað og Reddit er með.

Hópar og söluvettvangur Eflaust höfum við öll fengið upp pínlegar færslur úr fortíðinni sem sýna okkur hvað notkun Facebook hefur breyst í gegnum árin. Umræðan hefur færst á hópa og fólk farið að nýta söluhópa gríðarlega mikið.

Þróunarteymi Facebook áttar sig á þessu og leggur því áherslu á að gera stjórnendum hópa auðveldara fyrir að hafa umsjón með þeim. Notendum verður líka gert auðveldara fyrir að finna hópa sem passa við þeirra áhugamál eða fara í sína hópa með nýjum „Groups-tab“. Facebook mun bjóða upp á „join-group“ hnapp sem t.d. er hægt er að setja á vefi eða í e-mail.

Watch-partý

Video hafa gríðarlega mikið vægi á Facebook og hefur þróunarteymi unnið að því að gera ýmsar viðbætur í kringum þau til að fá meiri þátttöku áhorfenda. Til dæmis verður hægt að bjóða vinum í „watch-party“ þar sem notendur geta boðið vinum sínum að horfa á video á sama tíma og þeir og spjalla um efnið á meðan. Þetta er svipað og er nú í boði á LIVE-videoum en nú er hægt að takmarka hverjum maður býður að horfa með sér.

watch-party.png

Öryggi

Facebook rak sig illa á í gagnaöryggi fyrr á árinu þegar upp komst að forrit frá þriðja aðila hafði safnað saman upplýsingum um notendur og selt þær áfram. Til að bregðast við þessu hefur Facebook takmarkað aðgang að upplýsingum sem hönnuðir appa fá aðgang að. Einnig hefur Facebook ráðið sjálfstætt starfandi kóða-endurskoðendur til að rannsaka hvert einasta app sem hefur haft aðgang að miklum upplýsingum um notendur.

Margir hafa líka fengið upp áminningu í Facebook-appinu til að skoða „app settings“ og takmarka þannig aðgang ýmissa appa sem fólk hefur samþykkt að tengjast í fortíðinni.

Breyttur veruleiki - AR

Breyttur veruleiki eða Augmented Reality (AR) varð rosalega vinsæll með tilkomu Snapchat. Í kjölfarið tóku fleiri samfélagsmiðlar upp á að bjóða alls kyns filtera og fígúrur sem virðast birtast í þínu eigin umhverfi.

Facebook, Instagram og Whatsapp munu öll leggja meiri áherslu á AR, bjóða upp á fleiri filtera, bjóða notendum að búa til sína eigin filtera og einnig bjóða fyrirtækjum að nýta þetta í auglýsingaskyni. Til dæmis gætu fyrirtæki búið til filter í kringum viðburð og látið eitthvað tengt honum gerast í umhverfinu þegar fólk notar myndavélina með þeim filter. Svo yrði hægt að smella á hlutinn sem birtist og þá myndi appið færa mann yfir á upplýsinga- eða sölusíðu tengt hlutnum.

Facebook, Whatsapp og Instagram munu bjóða upp á hópspjall og í því mun einnig vera hægt að nota filtera.

AR.png

Stories

Stories eru stutt video sem lifa í 24 tíma og verða sívinsælli á Facebook, Instagram og Whatsapp (ótrúlegt en satt þá er þetta mest notað á Whatsapp í heiminum). Nú munu miðlarnir auðvelda deilingu efnis frá þriðja aðila (t.d. Spotify) beint í stories.

MESSENGER

Gjörbreytt hönnun

Á næstu misserum mun skilaboðaforrit Facebook, Messenger, breytast mikið í útliti. Markmiðið er að einfalda hönnunina, gera forritið hraðara og „stories“ meira áberandi.

stories.png

Breyttur veruleiki (AR) í videospjalli

Vinsældir filtera hafa sprungið í kjölfar Snapchat og því munu Messenger bjóða upp á ýmsa filtera í videospjalli, hvort sem það er við einn einstakling eða í hópspjalli.

Greiðslur í gegnum messenger

Í sumum löndum (t.d. Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi) er nú þegar boðið upp á greiðslur til félaga í gegnum Messenger, svokallaðar Peer-to-peer greiðslur. Það hefur gengið mjög vel og mun eflaust breiðast til fleiri landa áður en langt um líður.

Myndir í hærri upplausn (4K), 360° myndir og betri upplausn

Notendur hafa mikið óskað eftir að geta sent meira hágæðaefni í gegnum Messenger, eins og 4K myndir, video í betri upplausn og 360° myndir. Nú er teymið sem þróar Messenger að bregðast við því og verður það hægt á næstunni.

Þjónustuspjall fyrir fyrirtæki

Fyrirtæki hafa tekið eftir mikilli aukningu á að viðskiptavinir hafi samband í gegnum Messenger og nú býður Messenger upp á að hafa hnapp á vefsíðum þar sem notendur geta fengið samband við starfsmann eða bot („vélmenni“ – fyrirfram ákveðin svör fyrirtækisins) og fylgt því síðan eftir í gegnum Facebook-síðuna sína. Áhugavert er að tekið var fram að í fyrra voru 100.000 „bottar“ í gangi á Facebook-messenger fyrirtækja en í ár eru þau orðin 300.000.

INSTAGRAM

Instagram hefur tekið verulegum breytingum frá því að Facebook keypti fyrirtækið árið 2014, enda hafa vinsældir þess einnig aukist til muna.

Helstu breytingar sem voru tilkynntar í dag eru eftirfarandi:

Eineltis-filter í athugasemdakerfi. Nú munu athugasemdir sem innihalda móðgandi og leiðinleg orð eða blótsyrði vera síuð út og ekki sýnileg almennum notanda. Instagram kallar þetta „bully-filter“ enda á samfélagsmiðillinn ekki að vera vettvangur leiðinda eða eineltis.

Ný hönnun á Explore mun auðvelda notendum að finna myndir og efni sem þeir hafa áhuga á.

explore.png

Hópa- og video spjall mun verða möguleiki á Instagram þar sem fólk mun geta spjallað í gegnum video í hópum og jafnvel nýtt filtera í því (AR).

Meiri áhersla á breyttan veruleika eða augmented reality. Nú geta notendur búið til sína eigin filtera í stories og videoum og boðið fylgjendum að nota þá líka.

SÝNDARVERULEIKI / VIRTUAL REALITY

Mark Zuckerberg virðist viss um að sýndarveruleikinn sé framtíðin, enda keypti hann fyrirtækið Oculus VR til að þróa samhliða samfélagsmiðlunum. Í dag komu á markaðinn þráðlaus Oculus Go sýndarveruleikagleraugu sem eru mun ódýrari en aðrar týpur og innihalda ýmis innbyggð öpp. Við hlökkum til að fylgjast með hvernig þeim verður tekið og hvort framtíð samfélagsmiðla liggi í sýndarveruleika.

ANDREA BJÖRNSDÓTTIR
Samfélagsmiðla Sérfræðingur - SAHARA