Það fækkaði á tölvupóstlistum fyrirtækja vegna GDPR en skaðinn er takmarkaður.  Viðtal við Davíð Lúther, framkvæmdastjóra SAHARA -  Morgunblaðið . 

Það fækkaði á tölvupóstlistum fyrirtækja vegna GDPR en skaðinn er takmarkaður. 
Viðtal við Davíð Lúther, framkvæmdastjóra SAHARA - Morgunblaðið

MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 4. JÚNÍ 2018 

Eflaust kannast flestir lesendur við það að hafa fengið óvenju marga tölvupósta að undanförnu þar sem þeir eru beðnir um að samþykkja nýja notendaskilmála og staðfesta að þeir vilji áfram vera á póstlista sendandans. Ástæðan fyrir öllum þessum póstum er GDPR, nýja evrópska persónuverndarreglugerðin, og segir Davíð Lúther Sigurðarson að fyrirtæki sem hafa varið mörgum árum í að koma sér upp stórum netfangasöfnum standi núna frammi fyrir því að fréttabréf þeirra og auglýsingapóstar ná til mun smærri hóps. „Ég veit um eitt tilvik þar sem fyrirtæki var með rúmlega 10.000 tölvupósta á skrá hjá sér og notaði listann einu sinni í mánuði. Eftir að hafa beðið viðtakendur að gefa upplýst samþykki sitt minnkaði listinn um tvo þriðju.“

Davíð er meðstofnandi og framkvæmdastjóri stafrænu auglýsingastofunnar Sahara og segir hann að tjónið sé samt ekki eins mikið og gæti virst í fyrstu. „Staðreyndin er sú að þessi þriðjungur sem eftir situr er þá fólk sem hefur virkilegan áhuga á fyrirtækinu og vörum þess, og líklegt að þau viðskipti og þær tekjur sem mánaðarlegur tölvupóstur var að skila áður hafi komið frá þessum hópi, frekar en frá hinum sem hafa ákveðið að vera ekki lengur með.“

Sahara er ung auglýsingastofa en byggir á eldri grunni. Davíð setti Sahara á laggirnar árið 2016 með félögum sínum m.a. til að styðja við rekstur framleiðslufyrirtækisins Silent sem Davíð stofnaði með öðrum hópi fólks árið 2009. Silent og Sahara sameinuðust fyrr á þessu ári undir nafni þess síðarnefnda og býður í dag upp á heildstæðar lausnir á sviði stafrænnar markaðssetningar. 

Geta auglýst í öllum miðlum þegar vel árar 

Óhætt er að segja að stafrænt markaðsstarf íslenskra fyrirtækja hafi tekið út mikinn þroska á undanförnum árum. Greinileg breyting átti sér stað í hruninu þegar margir auglýsendur færðu sig frá hefðbundnum miðlum og út á netið þar sem þeir gátu fengið töluverðan sýnileika fyrir peninginn og bæði mælt og rakið árangur herferða sinna jafnóðum. Davíð segir að eftir því sem efnahagslífið hefur braggast hafi hefðbundnu miðlarnir fengið meira vægi, en þó ekki á kostnað stafrænu miðlanna.

„Auglýsendur sem áður þurftu að halda að sér höndum og höfðu jafnvel ekki bolmagn til að auglýsa í sjónvarpi, útvarpi eða í blöðunum eru núna duglegir að auglýsa í öllum tegundum miðla og hafa komið auga á að það er hægt að láta þessa ólíku miðla virka mjög vel saman.“

Aukið vægi stafrænnar markaðssetningar hefur þó þýtt að auglýsingar á netinu eru dýrari en þær voru áður fyrr. Fleiri vilja komast að og lögmál framboðs og eftirspurnar verður til þess að verðin hækka. Davíð segir verðin samt enn mjög hagstæð, og ódýrara að ná til íslenskra neytenda yfir netið en til neytenda í mörgum öðrum löndum. „Við höfum aðstoðað viðskiptavini okkar við herferðir erlendis og komumst m.a. að því að Stokkhólmur er mun dýrari markaður en Kaupmannahöfn fyrir Facebook-smelli, og Kaupmannahöfn dýrari en Reykjavík,“ útskýrir hann en bætir við að ákveðin leitarorð hafi hækkað í verði á íslenska markaðnum. „Auglýsingar fyrir ferðaþjónustu eru t.d. orðnar dýrari en auglýsingar fyrir aðrar vörur og þjónustu því að fleiri vilja komast að.“ 

Vettvangur sem breytist stöðugt 

Davíð segir að á sama tíma og íslenskt atvinnulíf hefur lært að nýta stafræna markaðssetningu þá hafi líka lærst hversu síkvikur stafræni heimurinn getur verið. Hann segir það hafa komið mörgum viðskiptavinum á Sahara á óvart hversu mikið má fá fyrir peninginn með vel heppnaðri markaðsherferð á netinu, en árangurinn fáist ekki nema með því að vera stöðugt á tánum. „Stórar breytingar í prent-, sjónvarps- og útvarpsauglýsingum gerast með mjög löngu millibili, og nýir miðlar koma ekki inn á markaðinn nema endrum og sinnum, en netið breytist frá einni viku til annarar. Sem dæmi þá hefur samfélagsmiðillinn Instagram verið að koma mjög sterkt inn á undanförnum tólf mánuðum og bætt við nýrri auglýsingaleið, „Instastory“. Þeir sem ekki vita af þessari þróun gætu verið að missa af góðu og ódýru auglýsingaplássi.“ 

Screen Shot 2018-06-11 at 20.15.54.png