Blog Layout

Google leit á Íslandi 2021

Við tókum saman lista af því helsta sem Íslendingar leituðu að á Google á árinu sem er að líða. Listinn er ekki tæmandi og Google gefur ekki upp fjölda leita að öllum leitarorðum sem við skoðuðum en sem reikna má með að hafi oft verið slegin inn í leitarvélina. Dæmi um slík leitarorð eru Bitcoin, Covid, Joe Biden, Donald Trump og Haraldur Þorleifsson. Leitarorðunum er skipt í eftirfarandi flokka, sem geta skarast:


  • Fólk
  • Afþreying
  • Stjórnmál
  • Fyrirtæki
  • Faraldurinn
  • Fasteignir og lán
  • Annað


Fólk

Fólk sem var mikið í fréttum á árinu trónir efst á þessum lista og má nefna áhrifavaldinn Eddu Falak, leikarann Alec Baldwin, fótboltamanninn Christian Eriksen og fjölmiðlamanninn Sölva Tryggvason. Mest aukning leita í þessum flokki var að nafni Eddu Falak (+1153% frá því í fyrra) en í ár var leitað 2.380 sinnum á mánuði að meðaltali að nafninu en oftast var leitað í maí þegar það var slegið 4.400 sinnum inn í leitarvélina.


Afþreying

Evrópumótið í fótbolta bar höfuð og herðar yfir önnur leitarorð tengd afþreyingu og náði hámarki þegar mótið fór fram í júní, þegar 49.500 manns leituðu að Euro 2020 og 40.500 að Euro 2021. Alls var leitað vel yfir 100 þúsund sinnum að mótinu sjálfu á ensku og íslensku í júní, sem þýðir að þriðji hver landsmaður hefur að meðaltali leitað þegar það fór fram. Kóresku sjónvarpsþættirnir Squid Game komu í öðru sæti og var oftast leitað að þeim í október, ríflega 27 þúsund sinnum. Kvikmyndin Dune kom í þriðja sæti og Eurovision í því fjórða.


Stjórnmál

Alþingiskosningar fóru fram í haust og því voru leitarorð tengd stjórnmálum fyrirferðameiri en í meðalári. Af stjórnmálaflokkum var að meðaltali yfir árið mest leitað að Sjálfstæðisflokknum (tæplega 3000 sinnum á mánuði), en í september þegar kosningarnar fóru fram var mest leitað að Viðreisn og Samfylkingunni (rúmlega 18 þúsund sinnum að hvorum flokki). Flokkur fólksins vann kosningasigur og endurspeglast það ágætlega í mestri fjölgun leita milli ára (+890%).


Hvað stjórnmálamenn varðar var nafn Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur oftast slegið inn að meðaltali, rúmlega 1500 sinnum á mánuði, Bjarni Ben fylgdi fast á hæla hennar með 1400 og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra rétt á eftir Bjarna með tæplega 1300 leitir á mánuði að meðaltali. Nöfn flestra stjórnmálamannanna voru vinsælust á leitarvélinni í september en athygli vekur að Willum Þór Þórsson kom oftar við sögu í nóvember (eftir að hann varð heilbrigðisráðherra) og nafn Áslaugar Örnu einnig oftar í nóvember en september.


Norðvesturkjördæmi var ekki vinsælt á leitarvélinni 2020 (þó var þá leitað 30 sinnum á mánuði) en sló rækilega í gegn á þessu ári með tíföldun leita og Ingi Tryggvason var álíka vinsæll á Google í ár og kjördæmið.


Fyrirtæki

Hér skoðuðum við aðeins lítið brot af fyrirtækjum landsins, en má reikna með að þau séu meðal þeirra sem oftast er leitað að. Ferðaþjónustufyrirtæki komust nær eðlilegu horfi eftir mjög erfitt ár 2020, sem endurspeglast í 58% fjölgun leita að Icelandair og 1180% fjölgun leita að Play, en Play flaug sína fyrstu ferð 24. júní. Á matvörumarkaði fjölgaði leitum að Costco mest (+25%), Samkaup næstmest (+19%) og Hagkaup þriðja mest (+17%). IKEA var einnig með verulega fjölgun leita eða 25%.


Faraldurinn

Eins og fram kom í byrjun gefur Google ekki upp hve oft var leitað að covid, en skal ósagt látið hvort leitarvélin er orðin jafnþreytt á því og almenningur. Mikið var leitað að hraðprófum (rúmlega 3.000 sinnum á mánuði), pcr prófum (1500 sinnum á mánuði) og bólusetningu (1300 sinnum á mánuði).


Fasteignir og lán

Mikið líf var á fasteignamarkaði og eitt vinsælasta og stöðugasta leitarorð landsins, fasteignir, birtist 15% oftar á Google í ár en í fyrra, rúmlega 17 þúsund sinnum á mánuði að meðaltali. Sömu sögu er ekki að segja um önnur leitarorð í þessum flokki, því þau lækkuðu milli ára: lán um 11%, húsnæðislán 18% og fasteignalán og vextir um 7% hvort. Hækkandi stýrivextir Seðlabankans hafa vafalaust haft sitt að segja í þessari þróun.


Annað

Í þessum flokki kennir ýmissa grasa og má m.a. nefna mikla fjölgun leita að jarðskjálfta (+83%) og eldgosi (535%). Onlyfans var mun meira gúgglað en í fyrra (+76%) og náði hámarki í apríl þegar leitað var rúmlega 18 þúsund sinnum. Air fryer var vinsæl jólagjöf í ár, sem endurspeglast í rúmlega tvöföldun leita m.v. árið í fyrra.

Share by: