Blog Layout

8 góð ráð til að ná umtalsverðum árangri með umhverfismiðlum

Mynd fengin að láni frá billboard.is

Gömlu góðu útiskiltin hafa verið til í meira en hundrað ár og fá kannski ekki mikla athygli markaðsfólks á tímum TikToks, Oculus-hjálma og Metaverse. En þau skipta samt ennþá miklu máli í markaðssetningu og eru gríðarlega áhrifarík aðferð til að ná mikilli dekkun.


Borgarlandslagið er morandi í skiltum og rannsóknir sýna að fólk er ekki ennþá hætt að fara út úr húsi. Útiskiltin hafa svo í raun umbreyst í stafræna markaðssetningu eftir að LED-skjáirnir komu til sögunnar en fjöldi þeirra jókst gríðarlega með samningi Billboard við Strætó árið 2018. Lengi vel var Ísland langt á eftir helstu mörkuðum sem við berum okkur saman við varðandi markaðsfjármagn í umhverfismiðlum en síðustu ár hefur þetta breyst hratt og nú erum við komin á par við það sem tíðkast víða annars staðar, og jafnvel yfir það í sumum tilvikum.


En það sem okkur finnst mestu máli skipta, sama hvar þú ert að auglýsa, er að þú gerir það vel. Að þú þekkir miðillinn, kosti hans og galla, og sníðir markaðsefnið að honum en ekki öfugt. Hér eru sjö ráð sem ætti að hafa í huga við markaðssetningu með umhverfismiðlum og útiskiltum:


1. Sparaðu textann


Í erlendum fræðum segja sumir sérfræðingar að bílstjórar hafi um sex sekúndur á meðan þeir keyra fram hjá skiltinu þínu til að meðtaka skilaboðin, aðrir segja þrjár til fjórar sekúndur. Við teljum að við íslenskar aðstæður sé þessi tími jafnvel enn skemmri, þar sem skyggni er oft lélegt. Það gefur því auga leið að ekki er skynsamlegt að rita langar ritgerðir á útiskilti, þvert á móti ætti sá texti sem þar endar að vera mjög knappur í læsilegu letri og nægilega stór. Skilaboðin eiga að vera mjög einföld og sumir ganga svo langt að segja að best sé að miða við sex orð eða færri. Á þessu eru þó einstaka undantekningar, til dæmis á skiltum við stór gatnamót þar sem mikið af fólki bíður lengi á rauðum ljósum, eða í strætóskýlum ef markhópurinn er strætófarþegar og gangandi vegfarendur, þá hefur þú aðeins lengri tíma til að koma skilaboðum á framfæri en samt ekki mjög langan.


2. Farðu varlega í Call to action


Hið alræmda CTA-orð, „Call To Action“, er það sem allar markaðsdeildir vilja troða sem víðast á netborða; bókaðu tíma hér, hafðu samband við ráðgjafa okkar, pantaðu núna, sendu okkur póst og svo framvegis. Það er gott og blessað á netinu en skilti við veginn er hvorki staður né stund til að hvetja fólk til að gera eitt né neitt, sérstaklega þegar fólk er að stýra þungu járnhylki á kannski 60-90 kílómetra hraða þá gæti það hreinlega verið hættulegt. Þetta er því almennt séð ekki miðill sem hentar best í beina sölu, heldur meira til að byggja upp vitund um vörumerkið.


3. Hugsaðu út fyrir skiltið


Þú gætir unnið með þrívídd eins og að láta bíl standa út úr skiltinu, klætt skiltið í risastóra úlpu til að auglýsa 66° norður, látið skiltið benda á eða spila með einhverju í umhverfi þess, borgað leikara til að klifra upp á það og syngja og dansa á umferðartímum. Þó að miðillinn sé almennt talinn „hefðbundinn“ ætti klárt markaðsfólk aldrei að láta það hefta hugmyndaauðgina, það er alltaf hægt að finna upp nýjar leiðir til að nýta gamla miðla.


4. Minna er meira – lágmarkaðu kraðakið


Ekki setja símanúmer, vefslóðir eða tölvupóstföng á umhverfisskiltin þín. Enginn á eftir að muna þau og það myndar bara kraðak þar sem einföld skilaboð ættu að vera í forgrunni. Þú ert kannski hrifinn af skrautlegum leturgerðum en á útiskiltum ætti að lágmarka flúrið og halda sig við einfaldar, stílhreinar og læsilegar leturgerðir. Forðist að nota eingöngu hástafi og passið að hæfilegt bil sé á milli stafanna. Veljið einfalt myndefni sem vegfarandi á auðvelt með að bera kennsl á og hafið bakgrunninn einfaldan. Látið vörumerkið koma skýrt fram.


5. Veldu liti með hátt andstæðugildi


Gott er að nota liti sem „contrasta“ hvorn annan og einfaldar skiptingar frekar en flókin mynstur. Þegar kemur að litanotkun í auglýsingum á útimiðlum er gott að hafa í huga að ekki eru allar litasamsetningar jafn áhrifaríkar. Arthur og Passini (1992) bjuggu til reikniaðferð sem sýnir hvernig mismunandi litir virka saman. Í meðfylgjandi töflu má sjá helstu niðurstöður en þar hafa verið reiknuð andstæðugildi mismunandi litasamsetninga. Ef skorið er 70 eða hærra þá er viðkomandi litasamsetning í lagi. Ef skorið er lægra en 70 þá er ástæða til að endurskoða viðkomandi litasamsetningu og prófa aðra ef tryggja á læsileika skilaboðanna.

Mynd fengin að láni frá billboard.is

6. Landafræðin skiptir máli


Það getur verið öðruvísi markhópur í Grafarvogi en í Vesturbænum eða á Akureyri. Að sama skapi er það ekki endilega sama fólk sem tekur strætó upp í efra Breiðholt og keyrir jeppana sína út á Seltjarnarnes. Þá er alltaf möguleiki á því að koma með staðbundinn húmor eða brandara á réttum stöðum til að komast nær fólki. Þá er mjög gott að nota skilti til að beinlínis vísa fólki veginn með skilaboðum eins og „0.5 kílómetrar í næsta Local“ eða „Beygðu til vinstri næst fyrir dýrindis kvöldverð með útsýni yfir Faxaflóann“.


7. Bara EIN hugmynd per skilti


Í miðlum sem fólk staldrar aðeins lengur við, t.d. heilsíðu í dagblaði, er hægt að skipta plássinu upp í mismunandi svæði og auglýsa nokkrar mismunandi vörur eða tegundir þjónustu. Á útiskiltum og umhverfismiðlum ættir þú aldrei að hafa meira en eina hugmynd eða eina vöru á hverju skilti, eða þá bara almenna vörumerkjavitund (e. brand awareness).


8. Vertu klár, en ekki of klár


Hin eilífa klemma auglýsingamannsins. Ef skiltið er of flatt þá tekur kannski enginn eftir því. Þú þarft að vera sniðugur, en passa þig samt á að vera ekki of sniðugur. Því fólk hefur jú bara örfáar sekúndur til að fatta hversu sniðugur þú ert, og helst þarftu að nota bara sex orð eða færri til þess. Góð umhverfisskilti eru þess vegna mikil áskorun fyrir klárt markaðsfólk, vegna hins knappa forms og þeirrar athygli sem um er að ræða.

Share by: