Blog Layout

5 fáránlega góðar ástæður fyrir því að nýta sér póstlista í markaðssetningu

Gamli góði tölvupósturinn hljómar kannski ekki eins og mest spennandi verkfærið á tímum gervigreindar og sýndarveruleika, en hann er samt sem áður ennþá eitt öflugasta markaðstólið á internetinu. Góður listi af tölvupóstföngum er gulls ígildi og með snjöllum herferðum sniðnum að mismunandi markhópum er hægt að auka söluna verulega, en þar geta þjónustur eins og Mailchimp og HubSpot komið að góðum notum. Hér eru fimm góðar ástæður til að nýta sér póstlista í markaðsstarfi:


1. Persónulegri nálgun


Með póstlista-markaðssetningu geturðu sniðið markaðsefni betur að hverjum og einum viðskiptavini, eins og þú sért að tala beint til hans. Þó að persónugervingin sé ekki stærri en svo að innihalda nafn viðskiptavinarins í póstinum, sýna rannsóknir að frekar er smellt á hlekki úr slíkum póstum. Þá geturðu líka skipt póstlistanum þínum upp í mismunandi hópa, eftir til dæmis aldri og áhugamálum, eða hvort þeir eru langatíma viðskiptavinir eða nýir. Þannig passarðu upp á að rétta fólkið fái réttu skilaboðin á réttum tíma.


2. Til að fá viðbrögð frá viðskipavinum


Þó að sumir kvarti kannski í búðinni, hringi eða sendi skilaboð í gegnum messenger, þá er það lítill hluti viðskiptavina og alls ekki víst að þeirra athugasemdir séu lýsandi fyrir meðalkúnnann. Besta leiðin til að safna ábendingum frá viðskiptavinum er í gegnum nafnlausar ánægjukannanir sem þú sendir út í gegnum póstlistann.


3. Þeir auka sölu


59% markaðsfólks segja að tölvupóstherferðir sé þeirra helsta uppspretta sölu og þeir sem notast við vel markhópaskipta póstlista hafa séð upp undir 760% aukningu í sölu. Póstlistaherferðir geta innihaldið efni sérsniðið að hverjum og einum. Þær geta til dæmis sent tölvupósta til fólks sem nokkrum dögum áður hafði sett tilteknar vörur í „kerruna“, en ekki klárað kaupin, og boðið afslætti á þeim vörum eða vöruflokki. 59% fólks hafa í könnunum sagt að tölvupóstur hafi haft áhrif á ákvörðun þeirra um að kaupa tilteknar vörur.


4. Þú finnur ekki ódýrari leið til að auglýsa


Póstlistaherferðir eru langódýrasta markaðsefnið, í bæði í framleiðslu og svo auðvitað birtingum. Það þarf ekki að greiða ljósmyndurum, leikurum, prenturum, módelum, ljósamönnum, sminkum, klippurum eða hljóðmönnum. Svo má strika út með einu pennastriki birtingarkostnað sem annars hefði runnið til sjónvarps- og útvarpsstöðva, dagblaða, Facebook og Google, því birtingarkostnaður er beinlínis núll! Það eina sem þú þarft í framleiðsluna er einn eða örfáir klukkutímar hjá textahöfund og grafíker, og málið er dautt! 


5. Þú átt miðilinn


Á samfélagsmiðlum eins og Facebook, Twitter og Instagram ertu alltaf háður miðlinum, sem tæknilega séð á efnið sem setur inn og listann af áhangendum þínum. Hversu mörgum followers, og þar með viðskiptavinum myndirðu til dæmis tapa ef einhver þessara miðla færi á hausinn? Póstlistinn er hins vegar gagnabanki sem þú átt og gerir þér kleift að eiga í beinu og milliliðalausu sambandi við núverandi og verðandi viðskiptavini.


Share by: