Blog Layout

STRAUMAR & STEFNUR ÁRIÐ 2020 

Árið 2019 hefur verið viðburðaríkt í heimi samfélagsmiðla. Við höfum séð umtalsverðar uppfærslur á einum vinsælasta samfélagsmiðli heims, Instagram. Notkun Íslendinga á LinkedIn virðist vera að aukast jafnt og þétt auk þess sem spjallmenni (e.Chatbots) virðast vera ryðja sér til rúms hjá íslenskum fyrirtækjum. Svo má auðvitað ekki gleyma Facebook, risanum á markaðnum! Facebook trónir enn á toppnum sem vinsælasti samfélagsmiðill landsins, þó að hegðun neytandans þar inni sé að taka töluverðum breytingum, þar sem hann er farinn að hallast meira að persónulegum samskiptum inni í lokuðum hópum. 

Það er því alveg ljóst að 2020 verður spennandi ár! 

Í fyrra tókum við saman 9 strauma og stefnur, þar sem við drógum fram atriði á borð við; Instagram Stories, kaup á vörum í gegnum Instagram, „mobile first“ nálgun auk þess sem við fjölluðum um hlaðvörpin sem hafa svo sannarlega slegið í gegn! 

Margt af þessu hefur svo sannarlega staðist væntingar og mun halda áfram að þróast á nýju ári, en annað ekki alveg eins mikið! En nóg um 2019, það er komið að því að telja upp þau atriði sem við teljum að eigi eftir að vera áberandi árið 2020. 

SPJALLMENNIN KOMA MEIRA INN

Gríðarleg tækifæri hafa opnast fyrirtækjum með tilkomu spjallmenna og má segja að veislan sé rétt að byrja hér heima. Nokkur fyrirtæki hafa stokkið á vagninn og byrjað að innleiða spjallmenni hjá sér bæði í þjónustulegum og markaðslegum tilgangi. Fjöldi notenda á spjallkerfum á borð við Facebook Messenger er núna orðinn meiri en fjöldi þeirra sem eru á samfélagsmiðlum. Því er klárt mál að hér leynist fjöldi ónýttra tækifæra. 

Á Social Media Marketing World í mars 2019 var því spáð að yfir 80% fyrirtækja myndu vera búin að innleiða spjallmenni með einum eða öðrum hætti árið 2020. Við teljum ólíklegt að við munum ná svo háu hlutfalli á næsta ári hér heima en þrátt fyrir það munum við ugglaust byrja að sjá fyrirtæki innleiða einföld spjallmenni sem munu geta þjónusta viðskiptavini með helstu fyrirspurnir eins og um opnunartíma, staðsetningar, svör við helstu spurningum, þjónustuþætti og fleira. 

VINSÆLDIR SMÆRRI (e.MICRO) ÁHRIFAVALDA AUKAST

Áhrifavaldamarkaðssetning hefur vakið afar mikla athygli á síðustu árum og ætti það ekki að koma neinum á óvart, enda höfum við heyrt af fjölda dæma um að þetta vinsæla form markaðssetningar sé mjög áhrifaríkt ef vandað er til verka. Samkvæmt könnun sem Hootsuite framkvæmdi kom fram að 45% fyrirtækja hafa notast við eða ætla að notast við áhrifavalda markaðssetningu og er þetta ekki eina samantektin sem staðfestir þessar vinsældir.

En það er samt sem áður að verða töluverð breyting sem snýr að því að áhrifavaldar hafi ekki sama traust og þeir höfðu áður fyrr. Með auknum vinsældum og stærri áhrifavöldum vilja fleiri fyrirtæki taka þátt í leiknum sem gerir það að verkum að að eftirspurn verður meiri en framboð, þegar kemur að áhrifavöldum. Þá sérstaklega hér heima þó að þetta sé einnig að gerast erlendis. Þetta hefur gert það að verkum að sumir áhrifavaldar hafa tekið að sér samstörf sem eru ekki trúverðug, en einnig hefur aukin umfjöllun um duldar auglýsingar, brot á reglum um merkingar á færslum byggðum á greiddu samstarfi (#samstarf), eftirfylgni persónuverndar og þekking neytanda gert það að verkum að traustið hefur minnkað. 

Breytingarnar sem við munum sjá gerast á næsta ári er að fyrirtæki fara að vinna með færri áhrifavöldum og tengja þá meira við markaðsstarfið í heild sinni í stað þess að horfa til þeirra sem einhverrar skyndilausnar. Áhrifavaldar munu njóta góðs af þessu „brostna“ trausti þegar fyrirtæki fara að leita til þeirra í auknum mæli með það að leiðarljósi að ná til minni hópa með markvissari skilaboðum sem njóta trausts fylgjenda. 

TikTok – SAMFÉLAGSMIÐILLINN SEM ALLIR ERU AÐ SPÁ Í! 

Á tiltölulega skömmum tíma hefur samfélagsmiðilinn TikTok náð gríðarlegum vinsældum en í dag eru um 500 milljónir virkra notenda á samfélagsmiðlinum. Miðilinn er sérstaklega vinsæll hjá yngri kynslóðinni, en um 70% notenda eru á aldrinum 14 – 24 ára, þar af 63% kvenmenn. Með einfaldri könnun sem við framkvæmdum meðal nemenda úr Verslunarskóla Íslands kom til að mynda í ljós að TikTok og Snapchat voru þeir miðlar sem þeir eyddu mestum tíma á, sem sýnir hvað þessi miðill hefur vaxið fljótt í vinsældum. 

Töluverð umræða hefur verið um hvort að fyrirtæki ættu að taka þátt í leiknum og má líkja innkomu TikTok við innkomu Snapchat á sínum tíma. Eitt er víst að þarna leynast spennandi tækifæri. Við spáum því að þarna sé að opnast nýtt svæði fyrir áhrifavalda og að fyrirtæki munu fyrst og fremst vinna með þeim við gerð efnis í stað þess að opna sína eigin rás. 

ANDLEG HEILSA FARIN AÐ SKIPTA MEIRA MÁLI

Samfélagsmiðlarisarnir eru farin að huga mun meira að andlegri heilsu neytenda sinna en áður fyrr, en árið 2019 byrjaði Instagram að fela „like“ sem þótti mjög stórar fréttir en Facebook hefur einnig byrjað að prófa sig áfram hvað þetta varðar. Umtalið hefur ekki einöngu verið mikið erlendis heldur hafa þættir á borð við „Sítengd – Veröld samfélagsmiðla“ komið inn á kosti og galla samfélagsmiðla hér heima. 

Þessi breyting er einna helst drifin áfram af notendum samfélagsmiðla sem eru farnir að vera meira meðvitaðir um hvaða áhrif miðlarnir geta haft á andlega heilsu þeirra. Má t.d. nefna „National Day of Unplugging“ sem fékk 3.300 „mentions“ í ár þar sem fólk var hvattir til að aftengjast öllum stafrænum búnaði í 24 tíma til að ná betri tengslum við sjálft sig, fjölskyldu og samfélagið í kring. 

Einnig hefur hashtagið #DigitalDetox verið mikið notað þar sem hefur sýnt fram á að einstaklingar eru ekki að færast frá samfélagsmiðlum heldur frekar að læra að stjórna tímanum sínum betur inni á miðlunum með bættri andlega heilsu að leiðarljósi. 

Þetta þarf ekki að vera viðvörunarmerki fyrir fyrirtæki, heldur setur þetta frekar pressu á þau að vanda meira til verka þegar kemur að því hvaða efni þau eru að deila og við hverja þau ætla að tala, að skapa virðisaukandi efni og reyna frekar að stofna til samskipta við notendur í stað þess að „blasta“ miðlana með auglýsingum. 

LOKUÐ SAMFÉLÖG KOMA TIL MEÐ AÐ STÆKKA

Við höfum komið inn á það áður að neytendahegðun á Facebook sé að breytast töluvert og að einstaklingar séu farnir að færa notkun og samskipti meira inn í lokaða hópa, en þessi breyting er einnig að eiga sér stað meðal fyrirtækja. 

Ástæðurnar eru nokkrar en má þar til að mynda nefna að fyrirtæki eru að fá minni náttúrulega dreifingu (e.Organic Reach) og eru því farin að horfa til uppsetningar á sínum eigin hópum og þannig ná betur til lykilviðskiptavina. Svo eru einstaklingar orðnir meira passasamir varðandi hverju þeir deila og virðast vilja í auknum mæli halda samskiptum meira „private“ inni í Facebook hópum, á Facebook Messenger eða Instagram DM´s.

Til eru fjölmörg dæmi um hópa sem hafa notið gríðarlegra vinsælda og má þar til að mynda nefna Dr. Football hópinn á Facebook, Matartips, Eurovision hópa og marga fleiri.

Svo árið 2020 munum við jafnvel sjá minni opinbera notkun á samfélagsmiðlum en notkunin sem slík mun halda áfram að vaxa og þá sérstaklega inni í lokuðum samfélögum. 

ÍSLENDINGAR FÆRA SIG MEIRA YFIR Á LINKEDIN

Notkun Íslendinga á LinkedIn hefur verið að aukast nokkuð árið 2019 og sú þróun mun að öllum líkindum halda áfram árið 2020. Miðillinn hefur verið að taka nokkrum breytingum sem hafa lagst vel í notendur. Með aukinni notkun fara fyrirtæki að sjá sér leik á borði og vilja fá að taka þátt, sumum notendum til lítillar gleði þar sem margir hverjir hafa verið að flýja miðla á borð við Facebook til að komast í umhverfi laust við auglýsingar. 

En það þarf ekki að vera að það sé slæmt, sérstaklega í ljósi þeirra punkta sem við fjöllum um hér í þessu bloggi, þ.e. færri færslur, meiri gæði, virðisaukandi efni og svo framvegis! 

En fyrir fyrirtækin munu leynast gríðarlega spennandi tækifæri í LinkedIn, þá sérstaklega þegar kemur að B2B markaðssetningu og þeim „targeting“ möguleikum sem miðilinn býður upp á, en eins og staðan er núna þá eru einhverjar takmarkanir sökum tungumálaörðugleika þar sem íslenskan ekki enn orðin viðurkennt tungumál á miðlinum.

MYNDBÖND VERÐA ALLSRÁÐANDI 

Samkvæmt könnun sem Cisco framkvæmdi er áætlað að myndbönd muni vera algengasta form efnis sem deilt verður á samfélagsmiðlum eða alls 82% alls efnis! Þetta gefur bersýnilega til kynna hvað það skiptir miklu máli að fara bæta myndböndum inn í markaðsplönin. 

Þetta á við allar tegundir af myndböndum en það er alveg sama hvaða miðil þú horfir til, myndbönd eru talin aðal tegund efnis þegar kemur að því að tryggja meiri þáttöku og dreifingu. Facebook hefur gefið það út að myndbönd séu í ákveðnu „uppáhaldi“ og að Facebook Live myndbönd muni halda áfram að vaxa. Instagram Stories myndböndin þekkja allir og eru ótal möguleikar í boði fyrir fyrirtæki þegar kemur að því formi myndbanda ásamt Instagram TV sem hefur verið að vaxa í vinsældum. Svo er það LinkedIn en forsvarar miðilsins hafa verið að prófa sig áfram með Live auk þess sem mikið hefur verið rætt að algóritminn dreifi myndböndum betur en öðru efni. 

Þannig að eitt er dreifing á efni og svörun en hitt er svo myndun sérstakra markhópa út frá myndbandsáhorfi sem nýtist fyrirtækjum til endurmarkaðssetningar. Árið 2020 munum við halda áfram að sjá fleiri fyrirtæki tileinka sér efnissköpun á formi myndbanda. 

INSTAGRAM STÆKKAR OG ÞAR MEÐ IGTV
Í dag geta flest okkar tekið upp myndbönd. Þú þarft í raun ekki nema snjallsímann þinn og smá kunnáttu til að búa til sjónvarpsþátt. Það er auðvitað ekki gefið að gæðin verði frábær, en tæknin býður upp á möguleikana.

Instagram heldur áfram að vaxa og IGTV er enn stutt á veg komið hér á landi. Við spáum því að notkun þessa miðils muni bara aukast á árinu 2020. Hlaðvarpssprengingin hefur nú þegar átt sér stað og trúum við því að það komi að því að svipuð IGTV bylgja muni ganga yfir landið. 

Sá þáttur sem hefur vakið hvað mesta athygli á miðlinum undanfarið á landinu er „Tinder laugin.“ Sitt sýnist hverjum um þáttinn, en sá fyrsti fór í loftið 6. desember en var kominn með hátt í 30.000 áhorf í lok desember. Það verður virkilega áhugavert að fylgjast með vexti IGTV á nýju ári og vonandi munum við sjá hæfileikaríka einstaklinga nýta tækifærin sem þar liggja til að leyfa sköpunargáfunni að blómstra.

„LIVE“ EFNI KOMIÐ TIL AÐ VERA
 
Á undanförnum árum hafa samfélagsmiðlar lagt meiri áherslu á „live“ myndbönd. Þegar Live var kynnt fyrst var það nokkuð vinsælt og margir fóru að nýta sér það, en sökum gæða, bæði í mynd og hljóði voru margir sem fóru að efast um þessa nýjung. Það var svo ekki fyrr en einhverjum mánuðum seinna sem við fórum að sjá Live útsendingar aftur í meiri mæli þegar möguleikarnir voru orðnir fleiri og betri. 

Nú getum við valið um að vera í beinni útsendingu á Facebook, YouTube og fleiri miðlum en LinkedIn er einnig að prófa sig áfram með Live útsendingar. Þessi tegund af efni hefur verið að reynast vel þar sem áhorf notenda er allt að 10 – 20 sinnum lengra samanborið við almennt myndband. Sérfræðingar á borð við Neil Patel spá því að Live streymi muni velta 70,5 milljörðum dollara fyrir 2021, sem sýnir að þessi tegund efnis á bara eftir að stækka! 

Það eru því fjölmörg tækifæri fyrir fyrirtæki hér heima í að byrja að nýta Live í meira mæli og má búast við að við munum sjá mun fleiri beinar útsendingar árið 2020 samanborið við 2019! 

HLAÐVÖRPIN HALDA ÁFRAM AÐ SLÁ Í GEGN

Í spá okkar árið 2018 fjölluðum við um vinsældir hlaðvarpa og að þau myndu fara á mikið flug árið 2019 hér á Íslandi og það hefur svo sannarlega staðist. Hlaðvörp eru alls ekki nýtt fyrirbæri en Íslendingar hafa svo sannarlega stokkið á hlaðvarpsvagninn og eru farnir að „háma“ þau í sig eins hratt og þau koma út en töluvert magn af nýjum og flottum hlaðvörpum hafa komið út þetta árið. 

Vinsæl hlaðvörp á borð við „Dr. Football“ eru að fá allt í kringum 35.000 spilanir á hvern þátt sem gerir þáttinn líklega þann allra vinsælasta á Íslandi. „Morðkastið“ er svo með í kringum 11.000 spilanir á hvern þátt og „Alfa“ með í kringum 3.000 spilanir á hvern þátt. 

Við sjáum fyrir okkur að hlaðvörpin muni halda áfram að stækka árið 2020 og með því leynast töluverð tækifæri fyrir fyrirtæki að koma markaðsskilaboðum sínum á framfæri til síns markhóps. Samhliða þessum vinsældum má gera ráð fyrir að kostnaður fyrir birtingar muni aukast líkt og með aðra miðla og er því ráðlagt að skoða vel hvort að það sé hægt að tryggja sér auglýsingapláss hjá þeim hlaðvörpum sem henta þínu fyrirtæki.

STAFRÆNT AUGLÝSINGAFÉ MUN AUKAST

Árið 2019 var í fyrsta skipti sem stafrænn auglýsingakostnaður fór yfir 50% af heildar auglýsingakostnaði fyrirtækja í heiminum þar sem Google og Facebook voru vinsælustu stafrænu miðlarnir (kemur ekki á óvart). Þessi þróun er langt frá því að vera á enda og mun þetta hlutfall halda áfram að hækka á kostnað hefðbundinna miðla sem hafa sumir hverjir verið nokkuð seinir að aðlaga sig að þeim breytingum sem eru að eiga sér stað. 
Ísland er hér engin undantekning og munu íslensk fyrirtæki halda áfram að færa meira af sínu auglýsingafé yfir í stafrænar miðla en Ísland verður að teljast einstaklega gott fyrir stafrænar auglýsingar sökum hás hlutfalls einstaklinga sem eru nettengdir og nota samfélagsmiðla. 

Samhliða þessu munum við einnig sjá fyrirtæki fara leggja enn meiri rækt við innviðin sín þar sem við munum sjá fyrirtæki fara í breytingar á heimasíðum, netverslunum og CRM kerfum þannig þau geti með sem bestu móti mælt ávinning stafrænna auglýsingaherferða og tryggt sem besta upplifun fyrir neytandann í gegnum kaupferilinn.  

Takk fyrir lesturinn og gleðilegt nýtt stafrænt ár!
Share by: