Mæðrastyrksnefnd x Sahara
Sahara færir Menntunarsjóð Mæðrastyrksnefndar tvær milljónir króna

Sahara hefur ákveðið að veita Menntunarsjóði Mæðrastyrksnefndar styrk að andvirði tveggja milljóna króna í peningum og í formi náms við Sahara Academy. Á undanförnum árum hefur Sahara styrkt starfsemi Mæðrastyrksnefndar á ýmsan hátt, meðal annars með framleiðslu myndbanda, ljósmynda og nú síðast gerð nýrrar vefsíðu, menntunarsjodurinn.is.
Menntunarsjóður Mæðrastyrksnefndar hefur þann tilgang að veita konum með lágar tekjur, sem oft eru einstæðar mæður, námsstyrk til að afla sér menntunar eða starfsréttinda sem geta orðið til þess að bæta líf þeirra og fjárhagslega afkomu.
Það var Guðríður Sigurðardóttir, formaður Menntunarsjóðsins, sem veitti styrknum viðtöku úr hendi Sigurðar Svanssonar, framkvæmdastjóra Sahara. „Við þökkum Sahara innilega fyrir þetta höfðinglega framlag til sjóðsins sem gerir okkur kleift að veita fleiri tekjulágum mæðrum tækifæri til að sækja sér aukna menntun,“ segir Guðríður.
Sigurður segir að Sahara hafi í aðdraganda jóla ákveðið að leggja Menntunarsjóðnum lið með veglegu framlagi í stað hefðbundinna gjafa til viðskiptavina stofunnar, sem má segja að séu þátttakendur í þessu framtaki með því að gera það mögulegt.
„Sahara hefur starfrækt Sahara Academy í nokkur ár og útskrifað hátt í 200 manns. Í gegnum reynslusögur og samtöl við nemendur sjáum við hvernig námið hefur opnað þeim ótrúlegan fjölda tækifæra. Mæðrastyrksnefnd er að vinna aldeilis frábært starf í þágu samfélagsins og með því að styðja við Menntunarsjóðinn færum við einhverjum tækifæri til að byggja undir starfsframa og bæta þannig lífsafkomu sína og fjölskyldunnar, sem er algerlega í anda jólanna,“ segir Sigurður Svansson að lokum.