Blog Layout

Straumar & stefnur árið 2021

Consumer is KING

Hvar eigum við að byrja? Þegar við settum saman straumar og stefnur fyrir árið 2020 þá hefði okkur aldrei órað fyrir þeim áskorunum sem fyrirtæki myndu standa frammi fyrir. Flest ef ekki öll fyrirtæki hafa þurft að stíga nokkur skref til baka, teikna upp áætlanir alveg frá grunni og nálgast markaðsstarfið með breyttu sniði frá því sem áætlað var.


En að einhverju leyti hefur ástandið ýtt undir eða flýtt fyrir þeim þáttum sem voru dregnir fram í spánni. Við erum farin að sjá fleiri LIVE útsendingar vegna ástandsins og hafa fyrirtæki þurft að aðlaga sig fljótt að þeirri leið þegar kemur að miðlun efnis. Við spáðum því að hlaðvörp myndu halda áfram að vaxa í vinsældum og hefur löngun einstaklinga í nýtt efni verið mikil á þessum sérstöku tímum sem hefur orðið til þess að við erum farin að sjá enn meira framboð af flottum hlaðvarpsþáttum.


Í SAHARA Podcast þáttunum sem við framleiddum fyrripart ársins 2020, sem báru yfirskriftina, Markaðsmál á tímum Covid-19, fengum við sérfræðinga til að ræða þessa fordæmalausu tíma sem við stöndum/stóðum frammi fyrir. Margt áhugavert kom þar fram og fóru fram skemmtilegar umræður um aðlögunarhæfni íslenskra fyrirtækja.


Þegar þetta er skrifað, þá er bóluefnið nýkomið til landsins og við erum farin að sjá fram á bjartari tíma. Hvað það verður sem mun einkenna markaðsmál á næsta ári verður að koma í ljós, en við hjá SAHARA spáum því að þeim fyrirtæki sem munu kafa dýpra og setja viðskiptavininn í alvörunni í fyrsta sæti muni vegna vel. Fjölbreyttir þættir koma þar við sögu sem við höfum listað hér upp fyrir neðan en við hefðum viljað hafa listann mun lengr en ákváðum að láta 9 atriði duga að þessu sinni.


#1 Áhersla á gæði frekar en magn


Það er komin ákveðin þreyta í auglýsingar á samfélagsmiðlum þar sem ekki er vandað til verka. Það er ekki langt síðan fyrirtæki fóru að stökkva á samfélagsmiðla og sáu þar tækifæri að auglýsa til tilvonandi viðskiptavina. Reglur eins og 20%-reglan á Facebook áttu að hamla dreifingu á óvönduðu efni ásamt því að vægi einstaklinga átti að fá meiri vigt þar sem mörg fyrirtæki voru ekki að spila leikinn rétt.


Árið 2021 munum við sjá fyrirtæki taka eitt, jafnvel tvö skref til baka og rýna betur í hvað þau ætla að setja inn á samfélagsmiðla. Hugsa með sér: er þetta efni virðisaukandi fyrir mína viðskiptavini, og er þetta efni til þess fallið að skila þeim árangri sem ég vil að það geri? ...... Ekki reyna að vera allt fyrir alla!

 

#2 Samræðumarkaðssetning (Conversational Marketing) mun skipta um tón

 

Þetta ætti ekki að koma á óvart en HubSpot hefur talað fyrir þessu í lengri tíma. Nú þegar fleiri eru farnir að vafra um netið í leit að vörum og þjónustu má gera ráð fyrir að nálgun fyrirtækja eigi eftir að breytast, þ.e. hvernig þau nálgast tilvonandi viðskiptavini. 


Fókusinn mun því beinast meira að því að aðstoða, hjálpa og upplýsa einstaklinga í stað þess að ganga beint í sölusamtalið, líkt og þekkist hjá mörgum fyrirtækjum.


Hvort þetta muni tefja innleiðingu spjallmenna í þjónustu-, sölu- og markaðsstarfið verður að koma í ljós en það er á hreinu að það að bæta þeim við til að svara einföldum spurningum, á eftir að hraða þjónustu og lætur flóknari og persónulegri samtöl í hendurnar á mannfólkinu.


#3 Myndbönd verða áfram í aðalhlutverki

 

Vægi myndbanda í framleiðslu efnis er alltaf að aukast og höfum við tekið fram í spám okkar síðustu ár að vægi þeirra muni halda áfram að aukast. Þetta ár sem er að líða er þar engin undantekning. Fyrr á þessu ári kom út skýrsla frá HubSpot, Not Another State of Marketing, þar sem kom fram að myndbönd væru algengasta leiðin til markaðssetningar og í öðru sæti yfir það efni sem notendur sýndu helst viðbrögð við á samfélagsmiðlum.


Þessi þróun er í takt við áherslur stærri samfélagsmiðla á borð við Facebook, Instagram, TikTok, Linkedin og Twitter sem hafa verið að leggja sífellt meiri áherslu á myndbönd í þjónustu sinni. 


→ 5 MISTÖK Í MARKAÐSSETNINGU MEÐ MYNDBÖNDUM OG HVERNIG BEST ER FORÐAST ÞAU
 

#4 Live útsendingar njóta áframhaldandi vinsælda

 

Beinum útsendingum hefur fjölgað umtalsvert árið 2020 sökum heimsfaraldurs Covid-19. Árið 2019 spáðum við því að þeim myndi fjölga en það hefur orðið algjör sprenging – og engin furða! Fyrirtæki hafa nýtt sér þessa tækni til að streyma frá viðburðum og öðru sem var fyrirhugað á þessu ári. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með hversu mörg fyrirtæki hafa farið  „all-in“. 

 

Ráðstefnuhald og aðrir viðburðir hafa flestir ef ekki allir verið settir á „hold“ árið 2021 og munum við því sjá áframhaldandi aukningu á beinum útsendingum. Fyrirtæki munu líklega nálgast þetta með enn betri hætti á nýju ári þar sem nú er komin ákveðin reynsla á það hvernig hægt er að nýta sér þessa framsetningu til að fræða, styrkja tengsl við viðskiptavini eða afla gagna um mögulega viðskiptavini. 



#5 Aukin krafa um árangursdrifna markaðssetningu

 

Árið 2021 eigum við von á að sjá fyrirtæki leggja meiri áherslu á skýra mælikvarða þegar kemur að herferðum og að þeir parist við lykilmarkmið fyrirtækisins. Þetta er eðlileg þróun þar sem mörg fyrirtæki hafa síðustu ár verið að kynnast og læra inn á stafræna miðla en með aukinni þekkingu og reynslu kemur krafa um að taka næsta skref hvað þetta varðar. 

 

Þetta er ekki ósvipuð þróun og áhrifavalda-markaðssetningin fór í gegnum á sínum tíma þar sem í fyrstu hoppuðu mörg fyrirtæki á vagninn, stofnuðu til samstarfs en með tímanum fór að koma aukin pressa á að það væri hægt að meta raunverulegan árangur þess að fara í samstarf. 

 

#6 Meira um minni herferðir – betra „targeting“

 

Við erum búin að snerta á þessu hér að ofan; virðisaukandi efni, ekki vera allt fyrir alla og svo framvegis, en árið 2021 munu fyrirtæki kafa ennþá dýpra í það að brjóta upp markhópana sína og leggja áherslu á minni og fleiri herferðir. Sem sagt, í stað þess að leggja áherslu á eina almenna herferð þá liggja gríðarlega spennandi tækifæri í því að brjóta upp markhópinn í minni hópa, eins og eftir aldri, kyni, áhugamálum og svo framvegis, og setja upp minni herferðir sem eru meira viðeigandi en þessi almenna.


Við erum með tækin og tólin, nú er bara að byrja að nýta sér þau til fullnustu. Rétta manneskjan, á rétta tímanum, á rétta staðnum – en með röngu skilaboðin – er tapað tækifæri. Það er því mikilvægt að huga að auglýsingum í heildrænni mynd þar sem texti, efni og auglýsingamiðill tala saman.

 

#7 „Interactive“ markaðsefni eykst í vinsældum

 

Spurningakannanir, léttar spurningar í gegnum Instagram Story eða Linkedin, gagnvirkar spurningar yfir myndbandsefni á Facebook og fleiri samskonar framsetningar eiga eftir að halda áfram að vera vinsælar á næsta ári. Þessi framsetning á markaðsefni er ekki bara skemmtileg heldur geta fyrirtæki nýtt sér þetta í mun meira mæli til að læra á viðskiptavini sína. Gögn úr könnunum sem koma fyrir á heimasíðu, eða einfaldar spurningar um vöru eða þjónustu á Instagram, geta haft jákvæð áhrif á hvernig þú setur upp herferðir og markaðsefni eða talar við þína viðskiptavini, bæði til þess fallið að bæta þjónustuna, bjóða fram nýjar vörur eða til að styrkja markaðsstarf með núverandi vöruframboði.

 

#8 Fleiri fyrirtæki fara að nýta sér YouTube

 

Í dag er YouTube önnur stærsta leitarvél heims, aðeins á eftir eiganda sínum Google, sem gerir það að verkum að það er sífellt að verða mikilvægara að hafa skilning á virkni YouTube fyrir vörumerkið þitt.


Með aukinni virkni á YouTube í gegnum árin hefur það sýnt sig að YouTube-herferðir geta haft sambærilega dreifingu og tíðni og sjónvarpsauglýsingar, aðeins á hagstæðari máta. Auk þess geta auglýsingar á YouTube stutt við auglýsingar á öðrum rásum, þar á meðal í sjónvarpi, með því að leggja áherslu á yngri kynslóðina og hegðun þeirra á stafrænum miðlum.


Samkvæmt niðurstöðum úr könnun MMR sem birt var í september 2020 er virkni YouTube að aukast en 64% þátttakenda segjast nota YouTube reglulega, þar af 84% þátttakenda á aldrinum 18–29 ára.


→ LEITARORÐANOTKUN ÍSLENDINGA FYRIR OG EFTIR TILKOMU COVID-19


#9 Netverslanir fá meiri athygli 

 

Heimsfaraldur kórónaveirunnar hefur gert það að verkum að mörg fyrirtæki hafa þurft að aðlaga sig fljótt að breyttu landslagi. Netsala hefur rokið upp og eru mun fleiri byrjaðir að versla í gegnum netið, ekki eingöngu eru einstaklingar farnir að versla meira, heldur eru líka nýir hópar byrjaðir að versla í gegnum netið sem höfðu áður kosið frekar að mæta í verslanir.


Við gerum því ráð fyrir að mikilvægi netsölu muni halda áfram að aukast á næsta ári þó að einhverjir muni vissulega kjósa að mæta í verslanir þegar COVID-19 faraldurinn klárast. 


En eitt er víst að fyrirtæki þurfa að fara að sinna netverslunum sínum eins og hverju öðru verslunarplássi. Það er ekki lengur hægt að horfa á þetta sem verkefni sem er sinnt með annarri hendinni. Gríðarleg tækifæri felast í því að hlúa vel að netverslunni.


→ SAHARA PODCAST - Markaðsmál á tímum COVID



Share by: